Að móta námsumhverfi í stærðfræði þar sem skapandi hugsun er í fyrirrúmi

Kristjana Skúladóttir stærðfræðikennari

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.5

Lykilorð:

stærðfræðinám, leiðsagnarnám, námsumhverfi, grunnskólakennsla

Útdráttur

Áhersla á hugsun barna um stærðfræði og hvernig þau takast á við stærðfræðinám sitt hefur fengið aukið vægi í kennaramenntun og námskrá undanfarna áratugi. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf stærðfræðikennara sem hefur haft það að markmiði að gefa nemendum sínum tækifæri til að beita skapandi hugsun við stærðfræðinámið. Kristjana Skúladóttir hefur kennt á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla í rúma þrjá áratugi og lagt sig eftir að kynna sér rannsóknir á hugsun barna um stærðfræði og kennsluhætti sem styðja þau við að beita skapandi hugsun. Greint er frá rannsóknarverkefnum sem hún hefur kynnt sér og lýst hvernig hún hefur nýtt sér þekkingu sína á þeim í kennslu sinni og við að styðja aðra kennara til að þróa kennsluhætti sína í stærðfræði. Við rannsóknina var beitt frásagnarrýni og stuðst við gögn frá ferli hennar sem kennara, viðtöl, vettvangsnótur og gögn frá nemendum. Niðurstöður rannsókna á kennsluháttum Kristjönu leiða í ljós að hún hefur átt í öflugu samstarfi við samkennara sína um að þróa kennsluhætti í stærðfræði þar sem skapandi hugsun, rökræður og áhersla á hlutdeild nemenda og ábyrgð á eigin námi er í fyrirrúmi.

Um höfund (biographies)

  • Jónína Vala Kristinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Jónína Vala Kristinsdóttir (joninav@hi.is) er fyrrverandi dósent í stærðfræðimenntun við Deild kennslu- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1975, meistaraprófi frá sömu stofnun árið 2003, doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2016 og prófi í uppeldisfræði frá Uppsalaháskóla 1983. Hún var bekkjarkennari og æfingakennari við Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands í 20 ár. Jónína hefur skrifað námsefni í stærðfræði fyrir miðstig grunnskóla, unnið að námskrárgerð í stærðfræði og kennt á fjölmörgum námskeiðum fyrir kennara auk kennslu í grunn- og framhaldsnámi kennara um stærðfræðimenntun. Rannsóknarsvið hennar tengist stærðfræðinámi og -kennslu í skóla fyrir alla, starfstengdri sjálfsrýni og samvinnurannsóknum með kennurum.

  • Ólöf Björg Steinþórsdóttir, H´áskóli Norður-Iowa - Stærðfræðideild

    Ólöf Björg Steinþórsdóttir (olly.steintho@uni.edu) er dósent í stærðfræðimenntun við stærðfræðideild Háskóla Norður-Iowa í Bandaríkjunum. Hún lauk bakkalárprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1986, meistaraprófi frá Wisconsin-háskóla í Madison í Bandaríkjunum árið 1997 og doktorsprófi frá sömu stofnun árið 2003. Hún var stærðfræðikennari í unglingadeild í 10 ár. Rannsóknarsvið hennar tengist stærðfræðinámi og -kennslu með áherslu á stærðfræðihugsun barna. Ólöf rannsakar sérstaklega talna- og aðgerðaskilning barna, skilning barna á hlutföllum og kennsluháttum sem skapa rými fyrir öfluga stærðfræðiumræðu. Hún hefur birt greinar um stærðfræðihugsun barna og hannað og kennt fjölmörg námskeið um hlutfallahugsun barna og um stærðfræðikennslu byggða á skilningi barna (SKSB). Ólöf kennir námskeið í grunn- og framhaldsnámi kennara um stærðfræði og stærðfræðimenntun.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)